12,5 km gangan

Athugið að neðangreind brautarlýsing á ekki við um gönguna 2019

 

 

Smellið hér fyrir gagnvirk kort á fullum skjá
50 km -  
25 km -
12,5 km -
5 km -

 

Í hnotskurn
Gangan byrjar á stuttum hring um start/marksvæðið en síðan tekur við kílómetri eða svo með býsna strembnu klifri. Raunar er fyrri hluti göngunnar talsvert á fótinn, en svo tekur við afar skemmtilegur kafli uppi á fjallinu Sandfelli. Í lokin koma svo u.þ.b. fjórir léttir kílómetrar niður í markið.

 

Start: 290 m.y.s.
Hæsti hluti brautar: 501 m.y.s. (Sandfell)
Hæðarmunur: 211 m
Lengsta samfellda klifur: 82 m hækkun
Heildarklifur: 245 m


Brautin
Lagt er af stað frá skíðagönguhúsinu á Seljalandsdal til norðurs eins og í hinum vegalengdunum. Fyrsti kílómetrinn er léttur hringur um start/marksvæðið en næsti kílómetri er hins vegar strembinn, með nokkuð bröttu klifri upp á Háubrún, einn besta útsýnisstað brautarinnar. Þaðan er fallegt að horfa yfir Skutulsfjörðinn og upplagt að smella af einni mynd eða svo ef fólk er ekki að flýta sér þeim mun meira. Eftir það er haldið fram Brúnir, eins og kallað er. Þar er slétta sem þó er örlítið á fótinn og liggur leiðin undir skíðalyftuna í Sandfelli og svo áfram í góðan kílómetra eða svo áður en komið er að brautamótum. Hér skilja leiðir, löngu vegalengdirnar halda beint áfram en 12,5 km leiðin beygir til hægri, nánast í 180° og við tekur klifur upp Sandfellið. Þessar brekkur eru þó ekki eins brattar og sú fyrsta, það er hægt að ganga þær með stórum og fallegum skrefum ef „fattið“ er sæmilega gott. Klifrinu sem nú er framundan má í raun skipta í þrennt. Í fyrsta áfanganum fer maður upp fyrir og framhjá endastöð skíðalyftunnar í Sandfelli, þar sem maður fær svolitla hvíld fyrir það sem framundan er. Í næsta áfanga  áfanga fer maður upp á sjálft Sandfellið en í þriðja áfanganum þokast maður upp á hæsta punkt brautarinnar. Þaðan er nær eingöngu rennsli niður í markið. Athugið að klifrið er ekki bara samfellt streð og þjáning. Eftir því sem ofar dregur minnkar hallinn og við tekur ganga í skemmtilegu og fremur léttu landslagi. Á leiðinni eru líka fallegir útsýnisstaðir þar sem hægt er að njóta vestfiskrar náttúru til hins ítrasta. Þegar við komum á hæsta punkt brautarinnar sjáum við á vinstri hönd upp í Miðfellsháls, þann alræmda síðasta hjalla í 25 og 50 km vegalengdunum. Við eigum hins vegar ekkert erindi þangað í þetta sinn. Brátt rennur 12,5 km brautin saman við brautirnar úr lengri vegalengdunum og við taka rennsli og ýtingar í markið. Farið er um Sandfellshraun niður á gamla skíðagöngusvæðið á Skarðsengi og þaðan niður á Eiríksmýri, sem er enn einn útsýnisstaðurinn á leiðinni. Eiríksmýri er slétta sem endar undir Sandfelli, skammt frá Háubrún þannig að nú erum við í raun búin að ganga hring í kringum þetta ágæta fjall, Sandfell. Þaðan er svo rennsli niður að marksvæðinu þar sem við vippum okkur í léttan endaprett. Nú ber hugurinn okkur ekki bara hálfa leið, heldur alla leið yfir marklínuna.