12,5 km braut troðin í dag

Það hefur snjóað aðeins á okkur í nótt og vinna troðaramenn nú hörðum höndum að því að útbúa 12,5 km hringinn, fyrir fólk til að æfa sig á í dag og taka stöðuna á snjó aðstæðum. Hringurinn fer upp í 500 m hæð, sem er sama hæð og megnið af 25 km og 50 km Fossavatns hringnum er í. Hann gefur því góða mynd af hvernig aðstæður eru og ætti að geta gefið hugmynd að því hvað á að setja undir. Bæði 25 km og 50 km hringirnir verða lokaðir vegna brautarvinnslu en 12,5 km hringurinn gefur góða yfirsýn yfir svæði og aðstæður.
Brautin opnar um kl. 12 á hádegi, í tíma fyrir fyrstu rútur sem fara úr bænum upp á Seljalandsdal.
Veðurspá dagsins spáir snjókomu, -1°c og norðaustan vind sem gæti pikkað aðeins upp seinnipartinn. Það á að kólna í kvöld og létta til, með spá um heiðskýran himinn, -4 til -6°c og vonandi sýnir sú gula sig þegar við hefjum leika í fyrramálið. En við erum á Íslandi.... munum að fylgjast vel með breytingum.