Fréttatilkynning 18.3.2020

FOSSAVATNSGANGAN 2020
 
Eins og öllum er kunnugt hefur samkomubann tekið gildi á Íslandi. Þar við bætist að víða um heim eru miklar hömlur á ferðalögum á milli landa, þ.a.m. ferðalögum erlendra gesta til Íslands. Verði samkomubannið ekki framlengt mun það renna úr gildi skömmu fyrir áætlaðan keppnisdag í Fossavatnsgöngunni, en þrátt fyrir það er enn óljóst hvort hægt verði að halda gönguna í ár. Við fylgjumst áfram með ráðleggingum og fyrirmælum frá yfirvöldum heilbrigðismála og íþróttamála í landinu og leitum leiða til að halda gönguna á ábyrgan og öruggan máta. Ljóst er að fari gangan fram á annað borð verður það með mjög breyttu sniði frá því sem fólk hefur átt að venjast og tæplega er hægt að reikna með því að erlendir þátttakendur myndu geta mætt til leiks að þessu sinni.
Við lítum svo á að frumskylda okkar sem mótshaldara sé að tryggja öryggi og velferð þátttakenda, starfsfólks og samfélagsins sem stendur á bakvið Fossavatnsgönguna. Gangan verður því aðeins haldin að það sé gert í sátt við heilbrigðisyfirvöld og aðra þá sem að þessum málum koma. Við munum birta nýja tilkynningu um stöðu mála í næstu viku. Þangað til viljum við biðja fólk að sýna okkur biðlund og auka ekki álagið á póstkerfið okkar, sem hefur verið gríðarlegt undanfarna daga. Ekki er hægt að svara spurningum um mögulega endurgreiðslu þátttökugjalda fyrr en við vitum betur hverju fram vindur.