Fréttatilkynning 23.3.2020

FOSSAVATNSGÖNGUNNI AFLÝST

Kæra skíðafólk
Eins og ykkur er kunnugt liggur nú allt íþróttastarf í landinu niðri og bann hefur verið sett við samkomum með fleiri en 20 manns. Miðað við núverandi áætlanir rennur bannið vissulega úr gildi skömmu fyrir Fossavatnsgöngu, en að okkar áliti er samt ekki verjandi að halda gönguna við þessar aðstæður. Miðað við reiknilíkön yfirvalda má búast við því að faraldurinn verði í hámarki hér á landi í kringum miðjan apríl og það væri að okkar mati ábyrgðarlaust að reyna að halda göngunni til streitu. Fossavatnsgöngunni 2020 hefur því formlega verið aflýst.
Vegna þessarar stöðu verður skráðum þátttakendum boðin endurgreiðsla á 50% skráningargjaldsins. Við biðjum ykkur þó að sýna þolinmæði því endurgreiðslan mun væntanlega taka nokkurn tíma. Fossavatnsgangan sjálf geymir ekki greiðslukortaupplýsingar þeirra sem skráðu sig til leiks og því erum við núna að skoða hvaða leiðir er best að fara við endurgreiðsluna. Upplýsingar um þetta verða settar inn á vefsíðu göngunnar og Facebook síðu hennar síðar.
Við höfum nú þegar unnið gríðarlega mikla undirbúningsvinnu og lagt út í mikinn kostnað vegna Fossavatnsgöngunnar í ár. Þess vegna er afar sárt að þurfa að aflýsa mótinu, en eins og í íþróttinni sjálfri þurfum við að kunna að taka ósigri með jafnaðargeði. Verst er höggið þó fyrir Skíðafélag Ísfirðinga, því Fossavatnsgangan er mikilvægasta tekjulind félagsins og í raun lykillinn að því að hægt sé að halda úti því öfluga barna- og unglingastarfi sem við höfum verið svo stolt af. Barna- og unglingastarf skilar ekki einungis af sér næstu kynslóðum keppenda heldur líka næstu kynslóðum þjálfara, sjálfboðaliða, mótshaldara o.s.frv.
Við leggjum nú frekari vinnu við Fossavatnsgönguna til hliðar í bili en snúum okkur að því að finna leiðir til að milda þann fjárhagslega skaða sem skíðafélagið okkar verður fyrir vegna aflýsingarinnar. Við viljum því þakka innilega öllum þeim sem nú þegar hafa haft samband við okkur og óskað eftir því að láta endurgreiðsluna sína renna til barna- og unglingastarfs Skíðafélags Ísfirðinga.
Við vonum að ykkur vegni vel og að þið sleppið við veikindi og aðra þá erfiðleika sem covid-19 veldur í samfélaginu okkar. Við treystum því að þetta gangi yfir áður en langt um líður og að við munum öll hittast í Fossavatnsgöngunni 2021.