Samstarf við Everest

Fossavatnsgangan og Skíðafélag Ísfirðinga í samstarf við útivistarbúðina Everest.

Útivistarbúðin Everest verður aðal fatastryktaraðili Fossavatnsgöngunnar og Skíðafélags Ísfirðinga (SFÍ) næstu þrjú árin. Everest er m.a. umboðsaðili Swix sem, er eitt stærsta og þekktasta merkið í gönguskíðaheiminum og Sportful sem er ítalskt merki og gönguskíðafólk þekkir vel.

Liðsmenn SFÍ og göngunnar munu klæðast fatnaði frá Everest og boðið verður upp á fatnað merktan göngunni til sölu hjá Everest.

„Við erum stolt af því að tengjast Fossavatnsgöngunni. S.l. ár höfum við lagt mikla áherslu á að þjónusta skíðagöngufólk vel og ætlum okkur að halda áfram á þeirri braut. Því er ánægjulegt að tengjast Fossavatngöngunni og Skíðafélagi Ísfirðinga og félagsmönnum þess.“ Segir Heiðar Ingi Ágústsson framkvæmdastjóri Útiveru, eiganda Everest.

„Það er mjög ánægjulegt að hafa náð samningum við Everest. Þeir eru leiðandi aðili í þjónustu við gönguskíðafólk á Íslandi og Fossavatnsgangan er stærsti skíðaviðburður á landinu. Ísafjörður er svo náttúrulega skíðagöngubærinn. Það er því gaman að þessir aðilar ætli að vinna saman að útbreiðslu íþróttarinnar.“ Segir Daníel Jakobsson formaður Fossavatnsgöngunnar.